Besta leiðin til að koma í veg fyrir að svindlað sé á manni er að þekkja réttindi sín og standa fast á þeim. Hér fyrir neðan er stutt yfirlit yfir helstu réttindi launafólks. Við höfum barist fyrir þeim í hundrað ár, stöndum vörð um þau saman. Ef þú ert í vafa um réttindi þín geturðu alltaf leitað til stéttarfélagsins þíns til að fá upplýsingar og ráðgjöf.

VEIKINDI OG SLYS

Veikist þú áttu rétt til að vera heima komist þú ekki til vinnu vegna veikindanna. Í lögum er öllum tryggður ákveðinn lágmarksveikindaréttur. Sá réttur er tveir dagar fyrir hvern unnin mánuð.

Veikindi ber alltaf að tilkynna launagreiðanda, að öðrum kosti kann réttur þinn til greiðslna launa í veikindaforföllum að falla niður.

Ef þú ert í vafa um hver veikindaréttur þinn er eða réttur til greiðslna hafðu samband við stéttarfélagið þitt.

Veikindi barna

Í kjarasamningum er launafólki tryggður réttur til fjarvista frá vinnu vegna veikinda barna án þess að launagreiðslur falli niður. Almennt er rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili.

Mundu að tilkynna launagreiðanda um fjarvistir vegna veikinda barna.

Slys í vinnu

Ef þú slasast við vinnu eða á leið til og frá vinnu áttu slysarétt auk hefðbundins veikindaréttar, þ.e. rétt til greiðslu dagvinnulauna í allt að 3 mánuði.

Mundu að hafa samband við stéttarfélagið ef þú slasast við vinnu.

Orlof

Skipta má réttindum vegna orlofs í tvennt, annars vegar réttar til frítöku og hins vegar réttar til greiðslu launa í orlofi.

Allir starfsmenn eiga rétt á sumarfríi eða orlofi. Orlofslaun eiga ekki að vera innifalin í launum.

Orlofsgreiðslur reiknast af launum og er grunnprósentan 10,17%. Venjulega fá starfsmenn greitt orlof frá launagreiðanda samtímis því og þeir taka orlof. Sé ekkert orlof tekið er skylda til að greiða orlofslaun eftir sem áður til staðar.

Mundu að þegar þú hættir í starfi áttu að fá greidd orlofslaun vegna ótekins orlofs.

vinnutími

Vinnutími

Í lögum er að finna þá meginreglu að fullt starf feli í sér að starfsmaður vinni 8 tíma á dag 5 daga vikunnar eða alls 40 vinnustundir.

Í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga kemur þó raunverulega fram hvernig vinnutíma starfsmanna skuli háttað.

Ef þú ert ekki viss um hver vinnutími þinn er ræddu við trúnaðarmann á vinnustaðnum eða stéttarfélagið.

HVÍLD OG FRÍDAGAR

Starfsmaður á rétt á a.m.k. 11 klst. samfelldri hvíld á hverjum sólarhring en við mjög sérstakar aðstæður er heimilt að skerða hvíldina. Í vaktavinnu skal hvíld vera átta stundir.

Almennt áttu rétt á tveimur frídögum í hverri viku en teljist annar þeirra vera hvíldardagur skal sá tengjast beint daglegum hvíldartíma. Þú átt því að fá 35 klst. samfellda hvíld einu sinni í viku.

Hámarksvinnutími að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera meira en 48 klst. á viku á hverjum fjórum mánuðum.

Mundu að vinnutímareglur eru mismunandi eftir kjarasamningum og því skaltu kynna þér vel hver réttur þinn er t.d. með því að ræða við trúnaðarmann eða stéttarfélagið.

MATAR- OG KAFFITÍMAR

Matartími er venjulega 30-60 mín. og telst ekki til vinnutíma. Matartími er ólaunaður.

Kaffitímar teljast til vinnutíma og eru launaðir og almennt á starfsmaður sem vinnur lengur en sex klukkustundir rétt á 15 mín í kaffitíma.

Mundu að þú átt rétt á matar – og kaffitímum!

stéttarfélög

Afhverju borga ég í stéttarfélag?

Í stuttu máli vegna þess að stéttarfélögin gera kjarasamninga sem ráða launum og starfskjörum þínum.

Laun og önnur starfskjör sem þú semur um við launagreiðanda eru grundvölluð á kjarasamningum. Ráðningarsamningur þinn má ekki veita þér lakari rétt en segir í þeim kjarasamningi sem gildir um starf þitt. Kjarasamningurinn er því mjög mikilvægur þegar kemur að starfskjörum þínum og öðrum réttindum á vinnumarkaði.

Stéttarfélagið sinnir margvíslegri þjónustu fyrir félagsmenn sína. Þar getur þú fengið upplýsingar og aðstoð vegna launaútreiknings og kjaramála, sótt námsstyrki, leigt orlofshús, fengið greiðslur vegna langvarandi veikinda og stuðning við að koma til vinnu eftir slík veikinda auk aðstoðar lögmanna vegna ágreinings við launagreiðendur.

Hér verður fjallað stuttlega um meginverkefni stéttarfélaganna en hikaðu ekki við að hafa samband við stéttarfélagið þitt ef þú ert í óvissu með réttindi þín eða átt í ágreiningi við launagreiðanda um starfskjör þín.

Stéttarfélagið aðstoðar ef ágreiningur kemur upp

Stéttarfélögin sem gera kjarasamninga við samtök fyrirtækja. Launafólk greiðir gjald til stéttarfélagsins sem launagreiðandi heldur eftir af launum. Gjaldið er í raun greiðsla til stéttarfélagsins fyrir að sinna kjarasamningsgerðinni auk annarrar þjónustu stéttarfélagins, t.d. ráðgjafarf vegna launaágreinings og aðgangs að lögmönnum ef deilur koma upp á milli starfsmanns og launagreiðanda. Starfsmenn eru í raun að greiða fyrir að fá að vinna eftir kjarasamningi félagsins sem kveður á um lágmarkskjör.

Ráðgjöf

Stéttarfélagið sinnir margvíslegri þjónustu sem félagsgjaldið stendur undir. Þannig sinnir félagið upplýsingagjöf til félagsmanna, veitir ráðgjöf vegna ágreinings við launagreiðanda um starfskjör og þá er lögfræðiþjónusta í boði fyrir félagsmenn þurfi þeir á slíkri þjónustu að halda.

Sumarhús

Félagsmenn geta sótt um að fá leigð sumarhús en nokkuð mismunandi er hvaða aðferðum stéttarfélögin beita við úthlutun húsanna. Leiguverði er reynt að halda í lágmarki.

Nám og námskeið

Vilji launafólk auka menntun sína er hægt að sækja um náms- og námskeiðsstyrki úr fræðslusjóðum stéttarfélaganna. Hafðu samband við stéttarfélagið þitt til að afla upplýsinga um þá námsstyrki sem þú átt rétt á. Þá kunna að vera í boði styrkir vegna tómstunda, s.s. líkamsræktarkorta, og annað slíkt.

Starfsendurhæfing

Ef þú hefur lent í veikindum eða slysi og hefur ekki sömu starfsgetu og áður skaltu hafa samband við ráðgjafa sjúkrasjóðs stéttarfélagsins þíns.

Í hvaða stéttarfélag á ég að greiða?

Það fer eftir því hvaða starfi þú sinnir og fyrir hvern. Til að fá upplýsingar um í hvaða stéttarfélag þú átt að greiða skaltu tala við launagreiðanda eða trúnaðarmann á þínum vinnustað. Upplýsingarnar eiga líka að koma fram á launaseðli.

ráðningar

Skriflegur ráðningarsamningur

Þegar þú ræður þig í vinnu er mikilvægt að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi í upphafi. Í ráðningarsamningi þurfa eftirtalin atriði m.a. að koma fram: nafn starfsmanns og atvinnurekanda, vinnustaður, tegund starfs eða stutt lýsing á starfinu, fyrsti starfsdagur, lengd ráðningar sé hún tímabundin, uppsagnarfrestur, mánaðar- eða vikulaun, lengd vinnudags, lífeyrissjóður og tilvísun til kjarasamnings.

Sé ekki kveðið á um tímalengd ráðningar er ráðning ótímabundin þ.e. ekki er ákveðið hvenær starfslok muni eiga sér stað. Sé ráðning ótímabundin getur vinnuveitandi ekki sagt þér upp störfum nema veita þér þann uppsagnarfrest sem þér ber samkvæmt kjarasamningi.

Mundu að semja með skriflegum hætti við atvinnurekanda, bæði þegar þú ræður þig í starf en líka þegar gerðar eru breytingar á starfskjörum þínum.

LAUN OG STARFSKJÖR

Um launin og önnur starfskjör er fyrst og fremst fjallað í kjarasamningum. Mikilvægt er að þú vitir hvaða kjarasamningur gildir um starfið sem þú ert að ráða þig í, því þá getur þú aflað þér upplýsinga um launakjör, réttindi og skyldur sem gilda um starfið. Flesta kjarasamninga má sjá á heimasíðum stéttarfélaganna.

Það er grundvallaratriði að laun og önnur starfskjör sem þú semur um við atvinnurekanda mega ekki vera lakari en kveðið er á um í kjarasamningi. Það er aftur á móti heimilt að greiða þér hærri laun og veita þér betri starfskjör en kveðið er á um í kjarasamningi.

Áður en þú hefur störf eiga laun og aðrar greiðslur að liggja fyrir því erfiðara kann að vera að semja um slíkt við atvinnurekanda þegar þú hefur hafið störf.

JAFNAÐARKAUP

Jafnaðarkaup er ekki til sem sérstakur taxti og við það fyrirkomulag er hættan að þú fáir í heildina lægri laun en þú hefðir fengið ef þú hefðir fengið greiddan dagvinnutaxta fyrir dagvinnu og yfirvinnutaxta fyrir yfirvinnu.

Ef atvinnurekandi segir að það sé venja hjá fyrirtækinu að greiða mönnum jafnaðarkaup skaltu fá að sjá forsendur útreikninga og bera þá undir stéttarfélagið þitt. Reynsla stéttarfélaganna sýnir að oft eru útreikningarnir rangir.

LAUNASEÐILL

Við útborgun launa áttu ávallt rétt á því að fá í hendur launaseðil.

Á launaseðlinum þínum á að sundurliða allar greiðslur sem liggja til grundvallar heildarlaunum. Frá heildarlaunum ber atvinnurekanda að draga frá staðgreiðslu skatta, lífeyrisiðgjöld, félagsgjöld o.s.frv. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma þessum frádráttargreiðslum til skila til réttra aðila. Það sem eftir stendur eru útborguð laun þín.

Ef þú áttar þig ekki á þeim upplýsingum sem koma fram á launaseðlinum skaltu hafa samband við stéttarfélagið þitt. Þar færðu góða aðstoð.

Ef þú telur að skekkja sé í launaútreikningi eða launin fást ekki greidd skaltu ennfremur hafa strax samband við trúnaðarmann á vinnustaðnum þínum eða skrifstofu stéttarfélagsins.

TÍMABUNDIN EÐA ÓTÍMABUNDIN RÁÐNING

Ráðningarsamningar geta annað hvort verið tímabundnir, t.d. frá 1. júní til 1. september eða ótímabundir þ.e.a.s. án lokadags ráðningar.

Sé ekki tekið fram í ráðningarsamningi að hann sé tímabundinn er litið svo á að samningurinn sé ótímabundinn.

Sé ráðningarsamningur tímabundinn þarf ekki að segja honum upp heldur lýkur ráðningu á þeim degi sem tekið er fram í samningum og starfsmaður lætur af störfum.   Ótímabundnum ráðningarsamningi þarf að segja upp með þeim uppsagnarfresti sem kveðið er á um í kjarasamningi.

Svört vinna

Stundum bjóða atvinnurekendur fólki svarta vinnu sem felst þá í því að launagreiðslur eiga að vera hærri gegn því að launin séu ekki gefin upp til skatts.

Svört vinna er ólögleg og getur varðað viðurlögum og háum sektargreiðslum.

Þá tryggir svört vinna launamanninum ekki margvísleg réttindi sem hann ætti ella rétt á og getur varðað miklu lendi starfsmaðurinn í áföllum.

Mundu að það er ólöglegt að stunda svarta vinnu!

VERKTAKAR

Sumir atvinnurekendur hvetja starfsmenn sína til að vinna störf sem verktakar.

Ef atvinnurekandinn þinn hvetur þig til að undirrita verktakasamning skaltu huga vel að því hvaða afleiðingar það hefur fyrir þig.

Ef þú starfar sem verktaki ertu í raun að reka lítið fyrirtæki. Verktaki nýtur ekki sömu verndar og venjulegt launafólk. Verktaki á ekki rétt til launaðs orlofs, uppsagnarréttar, launa í veikindum og vegna slysa. Þá þurfa verktakar að standa sjálfir skil á staðgreiðslu skatta og tryggingargjaldi.

Alla þessa þætti þarftu sjálfur að tryggja þig fyrir starfir þú sem verktaki þannig að launin þurfa að vera verulega hærri en þú hefðir fengið sem launamaður.

Talaðu við stéttarfélagið ef þú hefur frekari spurningar um verktöku.

uppsögn

Ef þú vilt segja upp vinnui eða launagreiðandi vill segja þér upp þarf að gera það með formlegri uppsögn. Í kjarasamningum kemur fram hver uppsagnarfrestur er en meginreglan er sú að uppsagnarfrestur er þrír mánuðir.

Ef þú ætlar að segja upp starfi þínu ber þér að gera það skriflega og miðast uppsagnarfrestur við næstu mánaðarmót. Þú þarft að vinna uppsagnarfrestinn og heldur öllum réttindum á uppsagnarfresti eins og hver annar starfsmaður, þ.e. heldur t.d. veikindarétti og ávinnur þér inn orlofsrétt. Þú átt að fá áunnið orlof og áunna orlofs- og desemberuppbót greidda út við starfslok.

Launagreiðandi tekur stundum þá ákvörðun þegar hann segir starfsmanni upp störfum að starfsmaðurinn þurfi ekki að vinna út uppsagnarfrestinn. Launagreiðanda er þetta heimilt en þá verður hann að greiða starfsmanninum laun út uppsagnarfrestinn. Mundu að fá staðfest skriflega vilji launagreiðandi ekki að þú vinnir störf þín út uppsagnarfrestinn.

Hafi þér verið sagt upp störfum er mikilvægt að hefja strax atvinnuleit en uppsagnarfrestur er hugsaður sem tími fyrir starfsmanninn til að leita sér að nýju starfi. Hafir þú unnið út uppsagnarfrestinn án þess að finna nýtt starf er nauðsynlegt að þú skráir þig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta.